Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
26.6.2009 | 20:30
NN frá Kópavogi
Þann 19. júní 2009 leit hann dagsins ljós hann NN frá Kópavogi rauðstjörnóttur.
Lýsan okkar alltaf söm við sig kastar á milli 15. - 20. júní. Samt var maður nú búin að gera sér smá vonir að hún stæði nú með folaldið hjá sér á síðsta degi sleppitúrsins, eins og undanfarin ár, en að vísu vorum við viku fyrr á ferðinni
Við hefðum nú alveg viljað bruna af stað að kíkja á strákinn en þar sem við vorum að fara með Glæsi, Sælu-Dís og Drift í hagann á laugardeginum að þá áváðum við að bíða aðeins og nýta ferðina þó að það hafi nú verið erfitt.
Eftir að hafa komið hrossunum út úr kerrunni tókum við nokkrar myndir og rákum þau síðan í réttina. Fínt að ná þeim núna og kíkja á hófa og gefa ormalyf.
Komin inn í réttina og Vængting stendur hjá folsa litla Ekkert orðin smá stór hún Vænting orðin 4ra vetra. Hún verður tekin inn í haust og gerð reiðfær og einnig verður byrjað að vinna í henni Perlu líka.
Svo náðum við líka þessari flottu mynd af Tjörn og Toppi. Hefði auðvitað verið enn betri ef réttin hefði ekki verið fyrir
Hann er svo sætur elsku litli karlinn. Alveg er ég handviss um að hann sé nú bara Snússinn okkar kominn aftur Svo eru þau bæði alveg einstaklega róleg bæði tvö og ekkert að vera stressa sig neitt yfir hlutunum. Hann skakklappaðist stuttu eftir að myndin var tekin yfir girðinguna
Þarna læddist stráksinn okkar aftan að Toppi og klóraði honum róandi uppá lendinni sem honum virtist líka mjög vel og var ekkert að stressa sig yfir því að vera kominn frá mömmu sinni en mamma fylgdist vel með þó svo að engin læti væru í henni þessari elsku.
Á meðan við vorum að sinna þeim í réttinni komu reiðhrossin og þau fáu tryppi sem eru með þeim. Þurftu sko að kanna hvað var í gangi þarna
Þarna er Gæfa frá Þorkelshóli, sú rauðskjótta 5 vetra, hin dásamlega Dásemd, grá, Ljóska frá Tunguhálsi II, leirljósi rassinn, Rán frá Útverkum, rauðtvístjörnótt og BARA 2ja vetra, svo sést í hann Munda, sem enginn mundi hvað heitir, og svo er hann Glæsir að labba úr mynd
Það var svo gaman hjá henni Rán að það þurfti að taka hlaupa aríu út um allt Set fleiri myndir af syrpunni sem við náuðum í myndaalbúmið.
Set svo eina í lokin af honum NN frá Kópavogi. Vonandi verðum við komin með nafn á hann fljótlega, en það tekur smá tíma þar sem við erum 4 eigendur
Bara sætur strákur
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2009 | 19:02
Skorradalur - Rauðanes
Sunnudagur 7. júní.
Allir vöknuðu nú á skikkanlegum tíma á sunnudeginum, en við ætluðum ekki að leggja af stað fyrr en um kvöldmatarleytið þar sem Landhelgisgæslan og Björgunarsveitin var með björgunaræfingar á Skorradalsvatni og notuðu þyrlu til þess. Þannig að fullt var af fólki og bílum. Fínt líka að taka því aðeins rólega og fylgjast með.
Þið verðið að afsaka að nú á ég ekki myndir til að setja hér fyrir síðasta daginn sem við riðum í Rauðanesið. En kannski seinna
Svo þarf ég líka að bæta upp minnistapið mitt þar sem nú er ég búin að komast að því að maðurinn hennar Fjólu heitir Francois og svo segir maður nafnið líka öðruvísi en það er skrifað, talandi um að rugla svona, EKKI nafnasnilling, eins og mig í ríminu
Þar sem við geymdum hrossin yfir nóttina heitir Litla-Drageyri og var farið um morgunin að járna þau hross sem komu kvöldið áður og svo að festa skeifu á tvö hross sem misst höfðu undan.
Við fræddumst líka á því kvöldið áður af honum Tryggva Lone Ranger að blindhæð og blindhæð er sko ekki það sama. Það fer sko alveg eftir því hvoru megin þú kemur að henni hvort þetta sé rétta blindhæðin!!!! Enda fórum við fyrst framhjá sumarbústaðnum enda ekki rétta blindhæðin, fyrr en við keyrðum aftur tilbaka........
Svona um kaffileytið fórum við að taka til í bústaðnum og koma okkur af stað. Tryggvi og Vera ætluðu að vera með hrossin á öðrum stað í hagabeit en við. En þar hefði verið erfitt að stunda einhverjar útreiðar þar sem ekki var hægt að smala þeim auðveldlega saman þar. Við ákváðum þá að hringja til Ingu Dísu þar sem við erum með hrossin okkar og spyrja hvort þau gætu ekki líka verið þar. Það var auðsótt mál og líka auðveldara fyrir okkur að reka þau öll niður sama afleggjarann.
Smöluðum hrossum saman í lítið rafmagnstaurahólf úr haganum og fyndið að sjá að öll Rauðaneshrossin voru öðru megin í hólfinu og hrossin hjá okkur Heimsendabúum í hinu horninu
Við beisluðum öll okkar og lögðum svo á hestana. Þegar allir voru tilbúnir var rekið af stað. Hrossin orðin vel vön hvort öðru rákust vel áfram.
Við stefndum í átt að Ferjukoti þar sem við ætluðum þar yfir Hvítá. Æðislegt veður og auðvitað fullt af útlendingum að taka myndir, svo takið eftir ferðafélagar að nú eru þið orðin fræg í einhverju útlensku blaði En þvílíkur munur að mæta útlendingum sem eru svo kurteisir og munar ekkert um að bíða þó svo að maður sé stopp og þurfi að járna og þvíumlíkt. Vildu ekki einu sinni fara framhjá þó svo að það væri í boði!!! En Íslendingar maður, kvarta og kveina yfir öllu og geta sko ekki beðið eftir neinu. Meira að segja í okkar eigin hópi!!! Þegar við stoppuðum í okkar einu stoppi kom stór Econoline og smeygði sér fram fyrir Halldóru þar sem hún beið í bílnum og hafði Nonna sem ferðafélaga. Nú, þar sem bíllinn stoppaði fyrir framan hana, og Halldóra að ná sér í brjóstsviðatöflur, tók hún ekkert eftir því að hún kom í sífellu við bílflautuna og flautaði glatt mörgum sinnum, bölvandi þessum bíl fyrir framan sig að hann kunni nú enga mannasiði þar sem rekstur væri!!!! Það þarf auðvitað ekki að taka því fram að hann Nonni vissi sko betur en að andmæla ófrískri konu og það æstri í þokkabót
Við hin héldum auðvitað að Econolininn hefði verið sökudólgurinn og bölvuðum honum í sand og ösku á næstu áningu. En þá kom sannleikurinn í ljós þar sem Nonni gat nú sagt frá með meira liðsinni í okkur hinum og Halldóra greinilega ekki alveg eins æst og á meðan þessu stóð
Þið sjáið það greinilega að það var alveg ómetanlegt að vera með svona hressu fólki í ferð og fólki sem kann alveg að hlæja að sjálfum sér líka, það er alveg ómissandi.
Ég verð líka að taka það fram að Delía, dóttir hennar Fjólu, var alveg rosalega duglega að ríða með þó svo að dagleiðirnar væru stundum strembnar en ekki gafst stelpan upp enda kippir hana í kynið með dugnaðinn eins og aðrir fjölskyldumeðlimir í Rauðanesi.
Síðasta áningin okkar var í hesthúsahverfinu í Borgarnesi þar sem við áðum vel fyrir síðasta spölinn. Rauðaneshrossin vissu greinilega hvert væri verið að fara og hertu ferðina en alveg var hægt að stjórna þessu vel áfram. Svo var alveg snilld hjá hrossunum að þegar við vorum alveg að koma að haganum hjá okkur fóru Rauðaneshrossin hjá Fjólu og Halldóru að vera heimafrek og bíta okkar hross frá sér, sem kom sér vel fyrir okkur þegar við svo skiptum þeim með málarbandinu góða og settum okkar hross inn í girðinguna hjá okkur. Bara snillingar þessi hross.
Svo er það víst enn betra þegar innar er komið, þá er bærinn hjá Fjólu aðeins til vinstri og bærinn hjá Halldóru aðeins til hægri og hrossin skipta sér bara eins og þetta sé fyrifram æft atriði eftir því frá hvorum bænum þau eru
Eftir að við vorum búin að taka af okkar hrossum og sleppa þeim beið Jónas, pabbi Halldóru, eftir okkur og tók við reiðtygjum í bílinn. Svo var okkur ekið heim til Halldóru þar sem Rósa mamma hennar beið með dýrindis máltíð handa okkur öllum Nú tók maður fyrst eftir því að maður var orðin svangur.
Takk kærlega fyrir okkur Rauðnesingar bara snilld þessi sleppitúr og hlakkar manni strax til þess næsta.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2009 | 01:25
Riðið inn í Skorradal
Laugardagur 6. júní.
Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur með fuglasöng og hrossakumri
Ja, sko ef þetta hefði nú verið svona, en jú bjartur var hann og fagur, en við vöknuðum við þvílíkt bílaflaut og héldum að nú væri sko ræs og Sigurjón Foreman væri sko að reka á eftir okkur, svefnpurrkunum. En þegar allir þustu á fætur, kom í ljós að Bastían sonur Fjólu frænku var kominn út í bíl og byrjaður að ræsa mannskapinn vel á minnst, hann er tveggja ára
Við byrjuðum á að hita kaffi og borða morgunmatinn. Gaman að sjá hvað Rauðanes fjölskyldan er samrýmd og samhent. Þau voru að segja okkur frá því að sveitungarnir skildu nú ekkert í því hvað þau voru að flytja hrossin alla leið til Reykjavíkur til að sleppa þeim, þegar þau þurftu bara að opna hesthúsið og láta hrossin labba yfir veginn og út á tún!!! Gaman að þessu.
Eftir matinn tókum við saman allt dótið og settum það sem þurfti áfram, í trússbílana. Ekki þurftum við heldur að vera með gjarðir og múla núna, því nú yrði bara rekið alla leið. Við tókum saman nesti fyrir daginn og fórum svo til hrossanna. Þau voru nú farin að venjast hvort öðru og rákum við þau öll inn í rétt, beisluðum og tókum svo það hross sem við ætluðum að ríða. Þarna var fín renna sem við gátum rekið eftir til að byrja með og náðum því mesta galsanum úr hrossunum við það. Svo var bara moldargötur áfram að Kaldadals afleggjaranum.
Áning áður en haldið var áfram inn að Kaldadal. Held að þetta fell sé Ármannsfell, en er ekki viss
Svo var haldið áfram veginn alla leið að Uxahryggjum. Frábært veður og Skaldbreið skartaði sínu fegursta Vá, hvað getur verið skemmtilegra en þetta? Jú, bara allur dagurinn framundan
Soldið fyndið að ég skuli vera segja frá landamerkjum og þessháttar, því það er ekki mín sterka hlið þegar ég er komin í hnakkinn og er í ferðalagi, þá er bara að taka inn og njóta alls sem náttúran hefur að bjóða þannig að tilfinningin og hugarmyndin er það sem eftir stendur, en ekki nöfn og kennileiti.
Fjóla frænka að láta Trausta festa skeifu hjá sér
Þarna áðum við áður en við riðum inn Uxahryggi. Festum skeifur á þá sem þurftu held að það hafi verið 2 sem duttu af frá Skógarhólum. Fínt að hafa Þuru og Traust keyrandi á eftir á Slotinu, sem er nafnið á bílnum þeirra bara snilld. Bæði fundu þau skeifur og svo flíkur sem runnu af manni í hitanum Svo var hann, jahérna hér, Fjólumaður, afsakið mig nú alveg!!! Nú man ég hvað börnin heita!!! Delía, Bastían og Óliver, hættið nú alveg, ég get alls ekki munað hvað maðurinn heitir!!! Nú verður einhver að bjarga mér!!!! Svo er þetta örugglega mjög auðvelt nafn, en MINNIÐ hjá manni, maður!!! Skelfilegt.
Eftir að búið var að koma skeifum undir var hrossum og mönnum vatnað og síðan haldið áfram
Hrossin voru bara róleg og lestuðu sig strax eftir góða áningu. Nú var haldið áfram dálítið grýttan spotta og nú er ég ekki viss hvort þetta var hinn kunni Leggjabrjótur eða hvort hann kom seinna. Þið hin, sem voruð í ferðinni, megið alveg líka kommenta hér en öll komment eru líka vel þegin og gott að vita að einhver nennir að lesa rausið í manni
Svo komu fleiri moldargötur. Þarna er Vera í eftirreið með okkur Ingu Lóu.
Nú riðum við áfram á feti og hrossin fylgdust svo vel að, að tími gafst vel í spjall. Þvílík notalegt. Næsta áning var við einhvern gangnamannakofa ( nafnið ?) og þar áðum við vel og borðuðum hádegismat. Trausti og Þura á Slotinu með kaffið og nestið Bara perlur bæði tvö, væri alveg til í ættleiðingu aldrei nóg af öfum og ömmum þegar hraðinn á lífinu er að keyra allt um koll.
Gangnamannakofinn. Sigurjón Foreman, fremstur með Gretti, hans hægri hönd, að leggja honum lífsreglurnar Frá vinstri sitja við kofann: Bjössi frændi, Tryggvi Lone Ranger og Jón Væni
Eftir mat var lagt á og haldið áfram sem leið lá niður að Skorradalsvatni. Tryggvi Lone Ranger var búinn að fá sumarbústað þar og beit fyrir hrossin á eyðibýli ( man ekki nafnið). Hrossin voru í góðu standi nema Ljóskan okkar, hún var hölt. Halldóra var búin að hafa samband við Jónas pabba sinn og var hann kominn ásamt Rósu, mömmu Halldóru og með kerru til að taka við Ljóskunni og kom líka með tvo aðra hesta til að lána
Eftir að hafa tekið af hrossunum og gengið frá reiðtygjum vorum við keyrð að sumarbústaðnum. Þar komust allir fyrir í bústaðnum, nema Halldóra og Sigurjón, sem vildu vígja pallhýsið sitt Gott var að komast í sturtu og Tryggvi Lone Ranger grillaði fyrir mannskapinn. Gat fólk valið um dauðar eða lifandi lundir og bragðaðist þetta mjög vel ásamt veigum og meðlæti
Sumir brugðu sér í pottinn en aðrir sátu og skröfuðu Svo var einn sem vildi endilega fara á ball í Borgarnesi, ríðandi, og lét vita af því. Svo lagðist viðkomandi í sófann og lét líða VEL úr sér þar til næsta morgun B..... við nefnum engin nöfn hér
Eftir yndislegan dag með skemmtilegu fólki lögðust allir til hvílu, en þó með eftirsjá, vegna þess að morgundagurinn var síðasti dagur ferðarinnar
Þið verðið að afsaka að myndirnar eru ekki fleiri, en við hjónin uppgötvuðum að við höfðum gleymt að hlaða myndavélina okkar og urðum við að reyða okkur á, að fá myndir frá hinum í hópnum.
Held áfram seinna með ferðasöguna Bless í bili.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2009 | 00:57
Sleppitúr 2009
Þann 4. júní sl lögðum við af stað í sleppitúrinn í ár. Þar sem við sleppum hrossunum okkar núna í Rauðanesi á Mýrunum og höfðum aldrei riðið þessa leið áður, þá var nú handhægast að leita til vina okkar Halldóru og Sigurjóns sem þar búa. Halldóra hefur fylgt föður sínum í ferðalögum frá blautu barnsbeini eins og við fengum að heyra og hafa þau saman ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum verið dugleg við að ferðast á hrossunum sínum.
Okkar góðu vinir og grannar í hesthúsunum, Tryggvi og Vera ákváðu líka að fara með sín hross í hagabeit þarna. Fimmtudagskvöldið 4. júni lögðum við 4 af stað frá Heimsenda með 12 hross og riðum upp í Helgadal þar sem við fengum pláss fyrir hrossin yfir nóttina. Fyrr um daginn komu þau úr Rauðanesi með sín hross, þannig að alls vorum við með 28 hross.
Næsta dag komum við í Helgadal um kl 13 og smöluðum okkar hrossum í réttina og beisluðum þau. Svo smöluðum við restina af hrossunum saman og passaði það akkúrat þegar restin af mannskapnum kom. Við vorum því orðin 8 reiðmenn sem myndu fara þessa 3 daga leið, s.s. Tryggvi, Vera, Sigurjón, Bjössi frændi, Fjóla frænka, Inga Lóa frænka, Nonni og ég Halldóra var í trússbílnum þar sem hún er enn önnum kafin að leggja lokahönd á að búa til erfingja, hennar og Sigurjóns Og svo Trausti og Þura sem kæmu um kvöldið.
Pissustopp við Skeggjastaði Bjössi og Vera á vaktinni. Hérna var málið eitthvað með hund sem átti að bjóða fram þjónustu ............
Við lögðum á og teymdum öll hrossin uppí Stardal þar sem við settum þau í réttina þar sem ákveðið var að reka þaðan inná Skógarhóla. Eftir gott nestisstopp lögðum við á og slepptum hrossunum af stað. Eins og alltaf var æsingurinn í hrossunum mikill en með því að hafa góða forreiðarmenn róaðist hópurinn fljótt og lestaði sig. Allir voru vel settir með málaraböndin sín í vasanum og gátum við því áð oft á leiðinni og skipt um hross. Það var yndislegt veður og æðislegt að ríða þessa leið.
Tryggvi að vatna við Skeggjastaði
Allt gekk mjög vel á leiðinni, utan það að annað ístaðið hjá Ingu Lóu brotnaði bara alveg af!! Nú voru góð ráð dýr og hún á tamningatryppi. En við gátum stoppað og hún notaði ístaðsólarnar til að halda áfram. Þar sem annar trússbíll var á leiðinni vara ákveðið að biðja þá um að taka ísstöð með, en þá voru þau komin í Mosfellsdalinn. Haldið ekki að perlan hún Helga á Dalsbúi hafi reddað ístöðum og trússbíllinn gat tekið þau hjá henni.
Svo þegar við vorum rétt að koma inná Þingvöll heyrum við líka þennan mótorhjóla hávaða og hrossin bara farin að renna mjög hratt en ekki gátum við séð hvaðan þessi mótorhjól voru að koma. Ég ákvað að reyna að kíkja tilbaka uppá hæðina sem við vorum að koma yfir og athuga hvort ég gæti séð þá. Já, og hvort ég sá þá!!! Áræðanlega um 20 stykki, spænandi og vælandi á reiðgötunni!!! Andskotans, ég varð svo reið að ég sveiflaði písknum alveg brjáluð á móti þeim og gleymdi auðvitað að ég var á Rex sem er ekki alveg að þola hvínandi písk út í loftið!!! Og hann auðvitað prjónaði bara þarna í hringi með mig á baki veifandi písknum, en náði ég þar athygli þeirra á hjólunum, og þeir fóru út á götu og héldu þar áfram. Held að ég hafi ekki verið árennileg þarna
Svo runnum við bara þægilega inná Skógarhóla þar sem fellihýsið beið okkar og Þura og Trausti á hinum trússbílnum og svo ....... ég skammast mín ógurlega því að nú man ég ekki nafnið á manninum hennar Fjólu ásamt sonum þeirra tveimur og dóttur. Nú verðið þið að skamma mig og kommenta hérna fyrir neðan nafnið á manninum. En meinfyndinn er hann og man ég alla brandarana sem hann sagði svona gullfiskaminni
Eftir að hafa borðað kvöldmatinn og sungið góða söngva, við undirspil Halldóru, skriðum við öll í háttinn
Ætla að stoppa núna en held áfram seinna með restina af ferðasögunni
Lífstíll | Breytt 17.6.2009 kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2009 | 23:36
TOPPUR FRÁ KÓPAVOGI
Þarna er hann kominn hann Toppur frá Kópavogi
Þann 1. Júní um hádegið hringdi hún Helga vinkona á Dalsbúi í Helgadal og sagði okkur að snarast til hennar í hvelli því hún Tjörn væri að kasta
Þetta gekk hratt og vel fyrir sig án allra vandkvæða sem betur fer. En hún Tjörn var mikið þreytt eftir köstun og leið greinilega ekki vel. Var sífellt að krafsa, lagðist niður, stóð upp og lagðist aftur. Þannig að Toppur litli komst nú ekki alveg strax á spenann.
Við toguðum Tjörn síðan upp og hjálpuðum litla karlinum að komast á spenann. Hann fékk broddinn sinn og var farinn að skakklappast um á sínum óstyrku fótum Stundum fór maður við framfætur og hélt að þar væri sko speninn, en nei ekki alveg. Svo var maður kominn alveg við hann.....
Ójá, einmitt þarna......
Hæ, eru þið þarna? Ég fór aðeins of langt.....
Topp litla tókst að komast á spenann og koma meltingunni sinni í gang. Og Tjörn mátti ekki af honum sjá og passaði hann vel. Þegar við fórum aftur var að koma lúllutími hjá honum enda mikið búið að ganga á hjá litlum karli
Nú er bara finna pabba hans með DNA testi læt ykkur fylgjast með.
Mikið jafnrétti í gangi í Dalsbúi þar sem 4 hryssur köstuðu, tvö merfolöld og tvö hestfolöld
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Hestasport
Tenglar
Mínir tenglar
- Glófaxi frá Kópavogi Stóðhesturinn okkar
- Ransý í Ásgarði Amma Glófaxa og Völusteins
- Helga Skowronski Söðlasmiður og vinkona
- Lilja vinkona skemmtilegt blogg
- Kolla í Mánaskál Skemmtilegt blogg
- Maríanna á Stórhól Skemmtilegt blogg
- Jóhanna Kristín Leigjandinn í hesthúsinu ;o)
- Valgerður á Hrauni Skemmtilegt blogg
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar